Golfvöllurinn á Sigló á endurheimtu landi

molin.jpg
untitled shoot-6154.jpg

Uppbygging nýs golfvallar á Siglufirði er skólabókardæmi um hvernig má endurheimta land sem gengið hefur verið á, segir golfvallarhönnuðurinn Edwin Roald Rögnvaldsson. Hann hannaði þennan fyrsta flokks níu holu golfvöll á Siglufirði sem hefur verið tekinn í notkun eftir tæplega áratuga byggingarferli í Hólsdal í botni Siglufjarðar.

„Völlurinn er gerður á malarnámu og snerist uppbyggingin um að græða dalinn upp og nýta til afþreyingar en hann var orðinn eitt flakandi sár,“ lýsir Edwin og hvernig ófrágengin málarnáman hafi raskað ármótum tveggja áa svo sjóbleikja gat ekki lengur synt upp árnar. „Við hönnuðum þann hluta vallarins sérstaklega til þess að framkvæmdirnar við völlinn myndu laga þetta vandamál og bleikjan gæti sem fyrr gengið upp ána.“

Edwin telur að ef að ekki væri fyrir golfvallarhugmyndina á Siglufirði í botni fjarðarins væri að öllum líkindum ennþá malarnáma á svæðinu. „Því það er hægara sagt en gert að sannfæra sveitarfélög um að leggja fé í að ganga frá gömlum námum þegar mörg verkefni bíða. Golfvöllur eykur hins vegar lífsgæði íbúa og gerð hans fegrar svæði sem áður var ósómi af.“